Kastljósi sagnfræðinnar varpað á sögu aukinna ökuréttinda

Í gegnum tíðina hefur kostnaður við  svokallað meirapróf verið mikill, ekki síst þegar vinnutap o.fl. er tekið með í reikninginn.

Fátt hefur verið úrræða annað en að setjast á skólabekkinn og nema fræðin, gangast undir margvísleg próf og endurtaka ef illa gengur. Þetta er sú aðferð sem langflestir hafa notast við í áranna rás.

Seint á síðustu öld komst upp um menn sem höfðu brugðið sér í hlutverk miskunnsama Samverjans og opnuðu nýja leið fyrir áhugasama bifreiðastjóra sem gekk út á það að fá auknu ökuréttindin á skemmri tíma sem fólst í því að þeir greiddu bara kostnaðinn við meiraprófið og sluppu þar með við harðan skólabekkinn og misstu ekki dag úr vinnu.

Þetta nýnæmi starfsmanna Umferðarráðs mæltist ekki vel fyrir af yfirvöldum og var þeim gert að láta af athæfinu og leita sér annarra starfa.

Til að gera fólki auðveldara að lesa þær tvær fréttir sem ég fann í fljótu bragði í gömlum Morgunblöðum læt ég þær báðar fylgja hér á eftir:

"Laugardaginn 12. júní, 1999 - Innlendar fréttir
Ríkislögreglustjóri rannsakar meintar falsanir á ökuprófgögnum
Ökukennari og starfsmenn Umferðarráðs liggja undir grun
Ríkislögreglustjóri rannsakar meintar falsanir á ökuprófgögnum

Ökukennari og starfsmenn Umferðarráðs liggja undir grun

ÖKUKENNARI, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald á föstudaginn í síðustu viku, að beiðni ríkislögreglustjóra í þágu rannsóknar á meintum fölsunum á ökuprófgögnum, var látinn laus á fimmtudagskvöld. Hefur maðurinn játað að hafa falsað staðfestingu ökuprófdómara á ökuleyfisumsóknum ökunemenda þess efnis að þeir hefðu staðist próf um aukin ökuréttindi eða meirapróf og bifhjólaréttindi.

Virðist margt benda til þess að brotin hafi verið framin í auðgunarskyni, að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar, löglærðs fulltrúa hjá ríkislögreglustjóra. Að hans sögn eru hin meintu tilvik á annan tug talsins og áttu sér stað á síðasta ári og á fyrri hluta þessa árs.

"Á þessu stigi málsins höfum við ekkert sem bendir til þess að tilvikin séu fleiri," sagði Helgi Magnús í samtali við Morgunblaðið. "Náð hefur verið utan um drjúgan hluta þessara tilfella, þannig að mjög fáir ökunemendur eru nú akandi um með fölsk réttindi vegna þessarar starfsemi. Það verður gengið í það á vegum Umferðarráðs og ríkislögreglustjóra að taka réttindi þeirra úr umferð."

Naut aðstoðar starfsmanns Umferðarráðs

Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að maðurinn naut í einhverjum tilvikum aðstoðar starfsmanns ökunámsdeildar hjá Umferðarráði, sem tengdist síðan enn öðrum starfsmanni Umferðarráðs vegna svipaðrar starfsemi. Hefur þeim báðum verið gert að mæta ekki til vinnu á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Að sögn Óla H. Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Umferðarráðs, mun ákvörðun um hvort þeim verði vikið frá störfum liggja fyrir að lokinni rannsókn ríkislögreglustjóra.

"Við lítum þetta mál mjög alvarlegum augum og ég er mjög sár og hryggur yfir því að þetta skyldi koma fyrir, en er að vona að umfangið sé ekki mikið," sagði Óli H. Þórðarson. "Það er hins vegar ljóst að eitt tilvik af þessu tagi er of mikið."

Hann sagði að hjá Umferðarráði hefði þegar verið gripið til aðgerða vegna málsins og lúta þær m.a. að því að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig.

"Aðgerðirnar felast m.a. í því að öll meðferð gagna Umferðarráðs hefur verið hert til mikilla muna. Reglan hefur verið sú að ökukennarar hafa sjálfir afhent gögn til lögreglustjóra til útgáfu ökuskírteina. Það hefur verið gert til að auðvelda hinum almenna borgara samskipti við hið opinbera, sem er stefna okkar. Þessu verðum við hins vegar að breyta, þannig að eftirleiðis fara allar sendingar af þessu tagi formlega á milli Umferðarráðs og viðkomandi lögreglustjóraembættis. Síðan skoðum við ofan í kjölinn öll þau mál sem um ræðir," sagði Óli H. Þórðarson."

Úr Morgunblaðinu:

"Miðvikudaginn 16. júní, 1999 - Innlendar fréttir

Rannsókn á skjalafalsi ökukennara og starfsmanna Umferðarráðs að ljúkaFölsuð ökuréttindi nemenda verða innkölluðRannsókn á skjalafalsi ökukennara og starfsmanna Umferðarráðs að ljúkaFölsuð ökuréttindi nemenda verða innkölluðRÍKISLÖGREGLUSTJÓRI heldur áfram rannsókn sinni á meintu skjalafalsi, sem varðar falsanir á prófgögnum, sem ökukennari hefur játað að hafa staðið að á síðasta ári og þessu ári.

Tveir starfsmenn Umferðarráðs

sæta einnig rannsókn ríkislögreglustjóra vegna aðildar sinnar að svipaðri fölsunarstarfsemi en ekki liggur fyrir játning þeirra, nema að litlu leyti.Að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar löglærðs fulltrúa hjá embætti ríkislögreglustjóra er viðbúið að rannsókn málsins ljúki á næstu dögum og verður það síðan tekið til ákærumeðferðar. Tekið skal fram að engir aðrir starfsmenn Umferðarráðs hafa verið viðriðnir umrædd brot.Eins og fram kom í Morgunblaðiðnu á laugardag er um að ræða á annan tug tilvika þar sem ökunemendur hafa fengið ökuskírteini með auknum ökuréttindum án þess að hafa gengist undir próf til þeirra ökuréttinda og bifhjólaprófs, en ríkislögreglustjóri, sem er í samstarfi við Umferðarráð vinnur að því að innkalla fölsuð ökuskírteini í umferð og komast að því hvort hugsanlega sé um fleiri tilvik að ræða, þótt fátt bendi til þess á þessu stigi málsins.

90-120 þúsund krónur fyrir aukin ökuréttindi

Um 5-6 vikur tekur að öðlast aukin ökuréttindi, en slík réttindi kosta á bilinu 90-120 þúsund krónur, að sögn Kjartans Þórðarsonar deildarsérfræðings í ökunámsdeild Umferðarráðs. Alls eru starfræktir 8 ökuskólar í landinu og stunda 5-600 nemendur árlega nám til aukinna ökuréttinda á þeirra vegum. 120 klukkustunda bóklegt nám liggur að baki fullgildu meiraprófi og þurfa nemendur að ljúka sex námsþáttum í bóklegri hlið námsins auk verklegs náms. Af bóklegum fögum eru kennd umferðarfræði, stjórn stórra ökutækja, bifreiðartækni I og II, ferða- og farþegafræði og skyndihjálp. Þreyta nemendur síðan lokapróf í bóklegum fræðum innan veggja hvers ökuskóla fyrir sig, en prófúrlausnum er skilað til Umferðarráðs til athugunar.Ljóst er að um talsvert mikla vinnu er að ræða til að ná auknum ökuréttindum og bendir margt til þess ekki hafi farið fram neitt nám hjá þeim nemendum sem fengu skírteini sín í hendur með þeim hætti, sem nú er verið að rannsaka.

Ennfremur bendir ýmislegt til þess að nemendurnir hafi greitt svipaðar fjárhæðir fyrir prófskírteini sín og þeir hefðu að öðrum kosti gert hefðu þeir farið hina hefðbundnu leið í gegnum námið.

Þótt sýnt sé að þeir hafi vitað af brotum hinna grunuðu, bendir ekkert til þess að þeir hafi átt beina hlutdeild að skjalafalsinu og ljóst er að þeir hafa ekki haft neinn annan hagnað af brotunum en þann að spara sér námstímann, að því er kemur fram í samtali við Helga Magnús Gunnarsson. Sá sparnaður mun hins vegar fara fyrir lítið þegar réttindi þeirra sem aflað hafði verið handa þeim með saknæmum hætti, verða innkölluð."

Svo mörg voru þau orð.

HLF. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úr hugskoti Heimis

Höfundur

Heimir Lárusson Fjeldsted
Heimir Lárusson Fjeldsted

Fyrrv. mjólkursaml.stj., fast.sali, frkv.stj., kaupm., bílstj. o.fl.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG 9978

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1031787

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband