Stebbi Kalli skrifar eftirfarandi á KR Reykjavík, sem ég tek traustataki og birti:
"Þá hefur áfrýjunardómstóll KSÍ dæmt í máli Vals og KR. Niðurstaðan er sú að dómur dómstóls KSÍ er staðfestur og sigur okkar KR-inga staðfestur. Það lá alveg ljóst fyrir að þetta yrði niðurstaðan en við bíðum spenntir eftir næsta leik Valsmanna.
Þeir sem hafa áhuga á því að lesa dóm áfrýjunardómstóls er bent á að lesa áfram.
Úrskurður áfrýjunardómstóls KSÍ
Ár 2008, fimmtudaginn 13. mars 2008, kl. 09.00, er dómþing áfrýjunardómstóls Knattspyrnusambands Íslands háð á skrifstofu Lúðvíks Arnar Steinarssonar, Skólavörðustíg 12, Reykjavík, af Lúðvík Erni Steinarssyni, Jóhannesi Albert Sævarssyni og Guðmundi Þórðarsyni.
Fyrir er tekið:
Mál nr. 1/2008
Knattspyrnufélagið Valur
gegn
Knattspyrnufélagi Reykjavíkur
Í málinu er nú kveðinn upp svohljóðandi
dómur
I
Mál þetta dæma Lúðvík Örn Steinarsson, Jóhannes Albert Sævarsson og Guðmundur Þórðarson. Hinn áfrýjaði úrskurður var kveðinn upp þann 26. febrúar 2008 af aga og úrskurðarnefnd KSÍ. Ótthar Edvaldsson formaður afrekssviðs Knattspyrnufélagsins Vals skaut úrskurðinum til áfrýjunardómstóls KSÍ þann 28. febrúar 2008, og geði þá kröfu fyrir hönd Knattspyrnufélagsins Vals að hinn áfrýjaði úrskurður yrði felldur úr gildi og dæmt yrði að kærði hafi tapað leik áfrýjanda og kærða í meistaraflokki karla í Reykjavíkurmótinu, sem leikinn var 14. febrúar 2008, með markatölunni 3-0.
Stefndi krefst staðfestingu hins kærða úrskurðar.
II.
Málsástæður áfrýjanda:
Áfrýjandi telur niðurstöðu hins áfrýjaða úrskurðar ranga. Í fyrsta lagi bendir áfrýjandi á að samkvæmt 9.gr. reglugerðar KSÍ skuli leikskýrsla afhent dómara með númerum of nöfnum þeirra leikmanna sem hefja eigi leik, auk varmanna. Leiðir að mati áfrýjanda af eðli máls að ekki sé unnt að láta aðra hefja leik eða koma inn á sem varamenn, en tilgreindir eru sem slíkir í leikskýrslu. Megi bæði dómarar leiksins og lið sem leikið er gegn ganga út frá því sem vísu að aðrir leiki ekki leik, en fram koma í leikskýrslu.
Í öðru lagi vekur áfrýjandi athygli á að kærði hafi sjálfur kosið að skila inn leikskýrslu með nöfnum fimm varamanna. Honum hafi samkvæmt samþykkt knattspyrnuráðs verið heimilt að skrá allt að sjö varamenn en hafi verið það óskylt. Hann stefndi notað ýmsar aðferðir við útfyllingu leikskýrslna í Reykjavíkurmóti m.t.t. fjölda varamanna.
Í þriðja lagi bendir áfrýjandi á, að jafnvel þó meint handvömm stefnda hafi í raun átt sér stað, geti það ekki leitt til þess að tilgreindur leikmaður verði allt að einu löglegur í leik gegn áfrýjanda. Í fjórða lagi vísar áfrýjandi til þess að með nýrri reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, hafi reglur um leikskýrslur verið hertar og vægi þeirra aukið frá því sem áður var.
Málsástæður stefnda:
Stefndi bendir á að knattspyrnuúrslit eigi að ráðast á velli, en ekki á mistökum við útfyllingu leikskýrslu. Það hafi KSÍ með setningu reglugerðar um knattspyrnumót staðfest. Þannig segi í 40.gr. að sé leikskýrsla vísivitandi fyllt ranglega út, hafi það í för með sér að leikur dæmist tapaður þ.a. viðurkennt hafi verið að handvömm, mistök valdi því ekki að leikur dæmist tapaður, enda bryti slíkt í bága við það sjónarmið íþróttanna um að úrslit leiks skuli ráðast innan vallar.
Bendir stefndi á að umþrættur leikmaður, Guðmundur Pétursson, hafi verið löglegur leikmaður KR og hefði nafn hans verið sett inn á leikskýrslu hefðu engin vandamál fylgt þátttöku hans.
Stefndi bendir á að honum sé í sjálfsvald sett að ákveða fjölda varmanna í hverjum leik.
Stefndi telur nýjar reglur KSÍ um leikskýrslu ekki i breyta þeirri meginreglu að úrslit leiks eigi að ráðast innan vallar en ekki utan hans, þ.e. að mannleg yfirsjón við útfyllingu leikskýrslu geti ekki valdið því að leikur tapist. Nýjum ákvæðum reglugerðar KSÍ sé ekki ætlað það hlutverk að gera liðum auðveldara fyrir að leiðrétta óhagstæð úrslit á grundvelli leiksskýrslu, heldur tryggja áreiðanleika skráningu upplýsinga.
III.
Óumdeilt er í máli þessu að í leik áfrýjanda og stefnda í meistaraflokki karla í Reykjavíkurmótinu, sem fram fór í Egilshöll, fimmtudaginn 14. febrúar 2008, lék í liði stefnda, leikmaðurinn Guðmundur Pétursson, kt. 241186-2379, en nafn hans er ekki að finna meðal þeirra 16 leikmanna sem stefndi tilgreindi á leikskýrslu fyrir leikinn. Stefndi vann leikinn með fjórum mörkum gegn engu.
IV.
Áfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi hafi verið með ólöglegan leikmann og að sér verði af þeim sökum dæmdur sigur í leiknum 3-0. Byggir áfrýjandi kröfu þessa á grein 40.1. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.
Stefndi krefst staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi.
V.
Ákvæði 9.gr. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót geymir fyrirmæli um hvernig leikskýrsla skuli fyllt út, hve margir varamenn megi vera í liði og á hvers ábyrgð það er að koma henni í hendur dómara fyrir leik.
Í grein 40.1. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót er fjallað um ólöglega skipuð lið og afleiðingar þess að mæta með slík lið til leiks. Í gr. 40.3. er kveðið á um afleiðingar þess séu leikskýrslur vísvitandi ranglega útfylltar, t.d. með því að falsa nafn eða kennitölu þátttakanda.
Óumdeilt er með aðilum máls þessa, að Guðmundur Pétursson var, þegar leikurinn fór fram, hlutgengur í skilningi gr. 3.1. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, til að leika með liði stefnda og sætti heldur ekki leikbanni. Leikheimild leikmannsins með stefnda tók gildi frá og með 20. febrúar 2008, en með vísan til bráðabirgðaákvæðis í grein 3.5. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, var leikmanninum heimilt að taka þátt í héraðsmótum frá og með þeim degi er keppnisleyfið er gefið út. Í dómi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ kemur fram að keppnisleyfi leikmannsins hafi verið gefið út 8. febrúar.
Af atvikum málsins er ljóst að mistök aðstoðarþjálfara liðs stefnda urðu til þess að nafn Guðmundar Péturssonar var ekki skráð á leikskýrslu fyrir leikinn í Egilshöll þann 14. febrúar 2008. Geymdi leikskýrslan því aðeins 16 nöfn en ekki 18 eins og heimild er til. Þó þessi mistök hafi verið gerð við útfyllingu leikskýrslunnar, verður ekki á það fallist með áfrýjanda að lið stefnda hafi verið ólöglega skipað í skilningi gr. 40.1. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.
Kröfu áfrýjanda er því hafnað og hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.
Lúðvík Örn Steinarsson
Jóhannes Albert Sævarsson
Guðmundur Þórðarson."in a
thugasemd
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.