Kolbrún Bergþórsdóttir hitti naglann

Það má vel vera að Kolbrún Bergþórsdóttir hafi hitt naglann um helgina á menningarrölti sínu um borgina. Ég veit það ekki. Hún hittir aftur á móti naglann á höfuðið í grein í Mogga í dag. Greinin á erindi við alla nagla þessa lands, sem á annað borð lesa blöð og bloggmiðla. Ég afritaði greinina og birti hana hér:

"Í nafni Nýja Íslands
Við lifum á tímum þar sem talið er ámælisvert að halda ró sinni. Það eru æsingamennirnir sem fá sínar fimmtán mínútur af frægð og njóta þeirra til ful...


Við lifum á tímum þar sem talið er ámælisvert að halda ró sinni. Það eru æsingamennirnir sem fá sínar fimmtán mínútur af frægð og njóta þeirra til fullnustu.
Við höfum flest alist upp við að það sé lítt geðslegt að missa stjórn á sér og afmyndast af bræði en síðustu vikur og mánuði hefur þótt verulega smart að froðufella af bræði og hafa hátt í nafni hins Nýja Íslands. Og þeim sem þannig láta finnst ekkert verra að sjónvarpsstöðvarnar eru yfirleitt ekki langt undan og mynda samviskusamlega.
Það hefur verið svotil daglegur viðburður að tekin séu viðtöl við æsta einstaklinga í mótmælastellingum sem í tali sínu ösla í svívirðingum um aðra og láta um leið eins og þeir séu réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar og tali í hennar nafni. Þeir tala bara alls ekki í nafni þjóðarinnar eins og öllum öðrum en þeim sjálfum er ljóst. Og hverjum er svosem ekki sama þótt þessir menn hangi við Seðlabankann eða aðrar stofnanir dag eftir dag?
Það má deila um hvort það er skondið eða sorglegt að þeir sem tala um þörf á nýju og betra Íslandi skuli bera ákaflega litla virðingu fyrir einstaklingum. Það er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá ákveðnum hópi manna að svívirða Davíð Oddsson og tala um hann eins og hann hafi bæði horn og hala. Viðbjóðurinn sem vellur upp úr ákveðnum hópi manna þegar Davíð á í hlut er þannig að siðuðu fólki hlýtur að ofbjóða. Það er til nokkuð sem heitir almenn kurteisi og kurteisisvenjur en þessi hópur virðist ekki þekkja til þeirra. Um leið og manni er það ljóst fer maður að efast stórlega um dómgreind hópsins.
Svo er fjöldi aukapersóna sem þessi fámenni hópur kann engin raunveruleg skil á en þykir afar þægilegt að kenna um hvernig fór fyrir þjóðinni. Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason vinna eða unnu með Davíð í Seðlabankanum og það nægir alveg til að hópurinn hrópi nafn þessara manna eins og þeir hafi verið í eintómu sukki og svínaríi og í landráðaham þegar þeir voru eingöngu að vinna vinnu sína.
Mótmælastaðan við Seðlabankann síðustu daga var engum sem í henni tók þátt til sóma. Enda runnu mótmælin út í sandinn því enginn nennti að mæta á þessa einkaskemmtun nokkurra hávaðamanna sem vilja fyrir allan mun koma sjálfum sér að í fjölmiðlum.
Það er komið nóg af öskrum og ópum. Fámennur hópur hefur staðið fyrir ólátum og virðist líta á sig sem samansafn af þjóðhetjum en þjóðin er að missa áhugann.
Nú er kominn tími til að setja skynsemi og yfirvegun í forgrunn. Hatur fer engum manni vel og það er engin ástæða til að bera virðingu fyrir þeim sem vilja slá sér upp á heiftinni sem þeir telja sig hafa allan rétt á að bera á torg."

Það er von mín að Kolbrún fyrirgefi mér framhleypnina.


mbl.is Bál kveikt á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Kolbrún hittir oft naglann á höfuðið, eins og þegar pistill hennar var um að Samfylkingin stjórnaðist af skoðandakönnunum.

Ragnar Gunnlaugsson, 15.2.2009 kl. 20:02

2 Smámynd: Heidi Strand

Like barn leker best.

Heidi Strand, 15.2.2009 kl. 20:16

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Kolbrún er engum háð hvorki eigendum Morgunblaðsins né öðrum. Hún fer eigin slóðir og enginn segir henni fyrir um pólitískar skoðanir. Stundum fara skoðanir okkar saman eins og núna. Þá gleðst ég innilega.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 15.2.2009 kl. 20:42

4 identicon

Kolbrún fær fullt hús stiga frá mér fyrir þennan pistil, enda góður.  Þetta er alveg rétt sem hún segir.  Nú er ekki tíminn til að taka fljótfærnislegar og illa ígrundaðar ákvarðanir.

Júlía Helgadóttir (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 23:25

5 identicon

Ég kynntist Kollu sumarið 1991. Öll þessi ár hefur það ekki gerst í eitt einasta skipti að ég hafi hitt hana í mótmælaaðgerð. Og það er ekki vegna þess að ÉG hafi ekki verið á staðnum. Kolbrún Bergþórsdóttir þekkir kveðskap Jónasar Hallgrímssonar ágætlega en hún hefur hinsvegar ekki hundsvit á pólitísku andófi. Hún hittir þó naglann á höfuðið að einu leyti; það er komið alveg nóg af hávaða. Við erum sennilega búin að ná þeim árangri sem hægt er með því að berja potta. Nú fer að koma tími á að kíkja í verkfærakassann.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 01:14

6 Smámynd: Jón Rúnar Ipsen

Eva miða við þinar skoðanir tel ég að það fari bet á að taka af þér verkfærakassan áður en þú ferð einhverjum að voða . En talandi um að hatur sé ekki til góðs þá held ég að margir hér á bloginu ættu að skoða í eigin barm sumir halda úti mjög svo hatursfullu bloggi í garð útrásarvíkinga . Og telja sig færa um að vega og meta hlut þeira í hruni Íslands oftar kemur þetta bara út sem kjánagangur og fíflalæti .

Ég hef undarfarna mánuði hort á fréttir beggja stöðva og lesið bæði moggann og fréttablaði og er viss um einungis toppurinn á þessum græðgis gjörðum einstaklinga sem eyddu orðsporði íslands á augnabragði . Hvert hlutverk okkar sem hér inni eiga að vera í að dæma þá einstaklinga veit ég ekki að hitt veit ég að ég mun halda áfram að hafa skoðun 

Jón Rúnar Ipsen, 16.2.2009 kl. 12:03

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Eva, finnst þér að Kolbrún eigi ekki að viðra skoðanir sínar vegna þess að: "... hún hefur hinsvegar ekki hundsvit á pólitísku andófi. " , eins og þú segir? Ég kvíði því að sjá hvað kemur upp úr verkfærakassanum þínum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.2.2009 kl. 12:23

8 identicon

Jú, ég vil endilega að Kolla og allir aðrir viðri skoðanir sínar því það er grundvöllur lýðræðis að ólík viðhorf fái að takast á. Það er hinsvegar alrangt hjá þér að hún Kolbrún hitti naglann á höfuðið og af virðingu við átakakenninguna ætla ég að svara henni.

Það er einfaldlega rangt hjá Kollu þegar hún fullyrðir að mótmælendur telji sig tala í nafni þjóðarinnar. Hugsanlega gera einhverjir mótmælendur það en aðgerðasinnar hafa almennt þá afstöðu, og hafa ekki farið dult með hana, að þeir tali fyrir sjálfa sig en ekki aðra, enda hafi þeir hvorki verið kjörnir né ráðnir til að taka ábyrgð á skoðunum annarra eða tala fyrir þá. Lýðræði ætti einmitt að virka þannig að hver hugsi og tali fyrir sig í stað þess að láta fulltrúa um það.

Það er afhjúpandi fyrir Kollu þegar hún spyr með nokkuð greinilegri hneykslun, 'Og hverjum er svosem ekki sama þótt þessir menn hangi við Seðlabankann eða aðrar stofnanir dag eftir dag?' Henni er greinilega ekki sama og til þess er leikurinn einmitt gerður að valda truflun, angra valdhafa og áhangendur þeirra.

Kolla dylgjar um 'ákveðinn hóp manna' og er þar með farin út fyrir þá málefnalegu umræðu sem hún krefst þó af öðrum.

Mennirnir sem voru bara 'að vinna vinnuna sína' skiluðu þannig verki af sér að þjóðin er tæknilega gjaldþrota, þeir eru því sannarlega engar aukapersónur þótt þeir standi í hinum stóra skugga Davíðs.

Það er því ljóst að Kolbrún hittir ekki nema einn nagla á höfuðið í þessari grein, og þyrfti því líklega að fara að kíkja í verkfærakassann og finna sér hamar sem hún veldur.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 23:02

9 identicon

Ég er sammála Kolbrúnu.  Ég er ekki sammála Evu.  Þarna er verið að tala um mótmælendur yfir höfuð.  Ekki þessa tegund mótmælenda eða hina.  Oft höfum við heyrt þá hrópa "Við erum þjóðin!" nema sá fréttaflutningur sé sviðsettur - og hvernig á að þekkja þá úr frá hinum?  Þeir eru flestir grímuklæddir!

Það liggur fyrir að þegar fólk er reitt, þá tekur það slæmar ákvarðanir.  Það hugsar ekki rökrétt.  Nú er um að gera að setjast niður og hugsa áður en verkin eru látin tala. 

Ég hef ekki mikla trú á því að nokkur annar hefði tekið öðruvísi á málunum.  Seðlabankastjórar fylgja lögum og stefnum sem mótaðar hafa verið á alþingi.  Svo kemur IMF og tekur af okkur völdin í eigin fjármálum - sem er ömurlegt af þáverandi þingmönnum að hafa skrifað upp á.  Þeir mega skammast sín.  Enn ömurlegra er að núverandi ríkisstjórn heldur samstarfinu áfram þrátt fyrir digurbarkaleg orð Steingríms.  Þar með eru seðlabankastjórar orðnir svotil valdalausir.  Ef fólk vill mótmæla valdlausum starfsmönnum sem eru hvort eð er eru á leið úr embættum sínum, verði þeim að góðu.  En það er ekki yfir gagnrýni hafið.

Mér finnst Kolbrún munda sinn hamar af mikilli yfirvegun.  Hún svo sannarlega er ekki tilbúin að taka þátt í múgæsingu, og ég virði hana fyrir það.

Fyrir utan það að enn á eftir að koma í ljós, hvort við erum tæknilega gjaldþrota eða ekki.  Enn á eftir að taka bankana í gegn, selja eignir og annað - ganga frá ýmsum samningum.  Ekki er komið á hreint hvort við munum borga ICESAVE.  

Hvernig væri annars að bíða og sjá hvaða ósóma sérstakur saksóknari dregur fram undan stólum bankanna?  Ég er viss um að það er góð ástæða fyrir því að bankarnir fengu ekki lán frá Seðlabankanum á sínum tíma.

Júlía Helgadóttir (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 14:46

10 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góður rökstuðningur og má flutt af fest, yfirvegun, skynsemi og hógværð. Svona eiginkonu vildi ég eiga;)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.2.2009 kl. 15:44

11 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Á auðvitað að vera festu.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.2.2009 kl. 15:44

12 identicon

Ég skil ekki hvað skynsamur maður eins og þú ert að gera eiginkonulaus?!  Nema að sjálfsögðu að allar þær góðu séu fráteknar

Júlía Helgadóttir (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 09:30

13 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég hef "átt" þær þrjár, hver annarri hæfari að vitsmunum, fegurð og gjörvuleika. Í lok þessa árs eru tíu ár síðan ég sá á bak þeirri síðustu. Það má segja að "sorgarskeiðið" sé senn á enda;)

Annars er það ekki spurning að þið þær bestu hafið öðrum hnöppum að hneppa og lásum að renna(:

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.2.2009 kl. 09:39

14 identicon

Vel að orði komist!

Júlía Helgadóttir (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úr hugskoti Heimis

Höfundur

Heimir Lárusson Fjeldsted
Heimir Lárusson Fjeldsted

Fyrrv. mjólkursaml.stj., fast.sali, frkv.stj., kaupm., bílstj. o.fl.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG 9978

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 1031708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband