DV

Fróðleg grein Ólafs Haukssonar sem ég stelst til að birta hér:

Mannorðsmorðingi að störfum

Einhverjir hafa velt fyrir sér hvort of sterkt sé til orða tekið að kalla Reyni Traustason, ritstjóra DV, mannorðsmorðingja.

Af því tilefni langar mig að lýsa aðför Reynis að Jóni Snorra Snorrasyni viðskiptafræðingi og háskólakennara. Dæmi svo hver fyrir sig hvort Reynir á þetta viðurnefni skilið.

Í mars 2011 hóf DV birtingu fjölda greina og frétta sem byggðar voru á spurningum sem viðskiptafræðingur á ráðgjafarsviði Ernst & Young varpaði fram í skýrslu sem hann setti saman um þrotabú iðnfyrirtækisins Sigurplasts. Það einkenndi skýrsluna að spurt var fjölda spurninga um ráðstafanir í rekstri Sigurplasts, en engra svara leitað og engar skýringar birtar.

Ritstjórn DV þóttu þessar spurningar og vangaveltur viðskiptafræðingsins safaríkar og birtu nánast alla skýrsluna í nokkrum tölublöðum og á dv.is í þessum marsmánuði. Að venju dró DV hvergi af sér í birtingu ávirðinganna. Til að gefa þeim aukið vægi var einatt talað um „endurskoðunarskýrslu Ernst og Young“ þó svo að enginn endurskoðandi hafi komið að gerð hennar og engin endurskoðun átt sér stað.

Pönkast á háskólamönnum

En Reyni Traustasyni þótti bersýnilega mesti fengurinn í því að fyrrum stjórnarformaður Sigurplasts var háskólakennari – Jón Snorri Snorrason lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Af einhverjum ástæðum, sem sjálfsagt þarf sálfræðing til að útskýra, virðist Reyni sérstaklega uppsigað við menntað fólk, tali nú ekki um háskólakennara. Þarna gafst Reyni kærkomið tækifæri til að taka einn slíkan niður, svo notað sé hans eigið orðalag um þær vinnuaðferðir sem honum hugnast best.

„Lögregla rannsakar lektor“ var stríðsfyrirsögn forsíðu DV, með stolinni andlitsmynd af Jóni Snorra. Ekkert var hæft í þessari fullyrðingu, lögreglan var ekkert að rannsaka Jón Snorra eða gjaldþrot Sigurplasts. DV ákvað hins vegar upp á sitt einsdæmi að kalla það lögreglurannsókn að skiptastjóri þrotabús Sigurplasts hafði sent skýrslu viðskiptafræðingsins til sérstaks saksóknara, eins og skiptastjórum ber skylda til ef einhverjar efasemdir eru um ráðstafanir í rekstri fyrirtækja í aðdraganda gjaldþrots. Þar lá skýrslan í bunka með öðrum slíkum.

Semsagt, það var engin lögreglurannsókn í gangi. Þessi ósanna ávirðing í garð Jóns Snorra var auðvitað ekkert annað en argasta ærumeiðing og höfðaði hann meiðyrðamál á hendur ritstjórn DV til að fá hlut sinn réttan.

Hefndaraðferðir Reynis Traustasonar

Að gagnrýna Reyni Traustason, hvað þá að höfða meiðyrðamál á hendur honum, er gulltrygging fyrir því að hann beitir fjölmiðlinum fyrir sig til að hefna sín á viðkomandi. Og þegar Reynir beitir sér í því skyni, þá dregur hann hvergi af sér.

Frá því í mars 2011 fram í mars 2013, í tvö ár, birtust í DV og og á dv.is rúmlega 60 sjálfstæðar fréttir og greinar sem snertu Jón Snorra, með síendurteknum rangfærslum, ávirðingum og lítillækkandi framsetningu. Með öðrum orðum, í rúmlega 60 skipti settust ritstjóri og blaðamenn DV við tölvuna til að skrifa nýja frétt til að níða skóinn af Jóni.

Hvað gerði Jón Snorri af sér?

Hafði Jón Snorri gert eitthvað af sér til að verðskulda þessa aðför að mannorði hans? Hann hafði verið stjórnarformaður fyrirtækis sem var lýst gjaldþrota eftir bankahrunið að kröfu Arion banka vegna ólögmætra lánaútreikninga. Stjórnarformenn í slíkum aðstæðum skiptu hundruðum eftir hrunið.

Jón Snorri var varla nefndur á nafn í spurningaskýrslu viðskiptafræðings Ernst og Young, þeirri sem DV tönnlaðist ranglega á að væri endurskoðunarskýrsla. Það voru því ekki ávirðingar varðandi gjaldþrot Sigurplasts sem skýrðu þennan áhuga á því að níðast á honum, heldur Þórðargleði yfir því að geta pönkast á háskólamanni og í framhaldinu sjúkur hefndarhugur ritstjóra DV vegna meiðyrðamálsins.

Í allri umfjöllun DV og dv.is um skýrslu viðskiptafræðingsins um gjaldþrot Sigurplasts voru einatt birtar andlitsmyndir af Jóni Snorra, þó svo að hann hafi aðeins verið stjórnaformaður fyrirtækisins.

Hæstiréttur sagði engar forsendur fyrir umfjölluninni

Ekki aðeins fór Jón Snorri í meiðyrðamál við ritstjóra DV, heldur vann hann það léttilega. Reynir Traustason var dæmdur fyrir ærumeiðingar í hans garð í héraðsdómi en undi því ekki og áfrýjaði til Hæstaréttar. Þar var dómurinn staðfestur og þá endanlega sprakk út heiftin hjá ritstjóranum.

Í dómi Hæstaréttar sagði m.a.:

Við athugun á umfjöllun og myndbirtingum um málefni Sigurplasts ehf. og fyrirsvarsmanna þess í prentaðri útgáfu DV og netútgáfunni dv.is er gerð atlaga að mannorði [Jóns Snorra] sem þá voru engar forsendur fyrir.

Reynir Traustason greip til ótrúlegustu útúrsnúninga til að réttlæta lygina um lögreglurannsókn. Hann sagði að móttaka sérstaks saksóknara á skýrslunni um þrotabúið jafngilti því að lögreglan væri að skoða málið og að skoðun lögreglu væri það sama og lögreglurannsókn. Að sjálfsögðu hentu dómarar þessum barnalegu rökum út á hafsauga. Enda hefur DV hvorki þá né síðar notað orðið lögregluskoðun um lögreglurannsókn. Ekkert er til í lögum um lögregluskoðun, en aftur á móti heilmikið um lögreglurannsókn.

Sérstakur saksóknari fann ekkert saknæmt

Svo fór þó reyndar að sérstakur saksóknari tók skýrsluna „til skoðunar“ löngu síðar. Þá fyrst var farið að leita svara við því hvort eitthvað saknæmt hefði átt sér stað í rekstri Sigurplasts áður en gerð var krafa um gjaldþrot fyrirtækisins. Niðurstaða sérstaks saksóknara var afgerandi. Ekki reyndist fótur fyrir einni einustu ábendingu í skýrslunni um saknæmt athæfi. Samt var DV búið að slá upp hverri opnunni á fætur annarri um slíkt og tengja myndina af Jóni Snorra við allar frásagnirnar.

Það segir svo auðvitað sitt um fólsku ritstjórans í þessu máli, að hvorki þá né síðar hefur DV eða dv.is birt stafkrók um niðurstöðu „skoðunar“ sérstaks saksóknara, þrátt fyrir að hafa öll gögn í höndum um það. Þögnin um þessa niðurstöðu sýnir auðvitað hvernig Reynir Traustason vinnur.

Þáttur Arion banka

Sagan er ekki öll og í seinni hluta hennar kemur þáttur Arion banka í þessu drullumalli betur fram í dagsljósið.

Undanfari málsins er sá að samskipti stjórnenda Sigurplasts og Arion banka voru orðin afar stirð um og eftir bankahrunið af ástæðum sem of langt er að rekja hér. Bankinn ætlaði að láta reyna á lögmæti gengisbundins láns til Sigurplasts fyrir dómi en hætti við á síðustu stundu og krafðist þess í stað gjaldþrotaskipta á grundvelli ólögmætra lánaútreikninga. Fjallað var um þessa sérkennilegu ákvörðun bankans í fjölmiðlum og hann harðlega gagnrýndur fyrir að láta ekki reyna á réttmæti kröfunnar. Virðist það hafa hleypt miklum hefndarhug í ákveðna starfsmenn bankans.

Auk skiptastjórans höfðu starfsmenn Arion banka skýrslu Ernst og Young undir höndum, þar sem bankinn var nánast eini kröfuhafinn. Aðspurður þvertók skiptastjórinn fyrir að hafa útvegað DV skýrsluna og þá voru fáir aðrir sem gætu hafa komið henni í hendur DV.

Leitað í ruslinu

Ritstjóri DV og hefnigjarnir bankamenn áttu semsé það sameiginlegt að vilja berja á fyrrum framkvæmdastjóra og stjórnarformanni Sigurplasts. Það hljóp því heldur betur á snærið hjá þessum sálufélögum þegar bankamennirnir fundu eftir mikla leit í skjalabunkum að hlutabréf Jóns Snorra í Sigurplasti höfðu verið veðsett í Sparisjóði Mýrasýslu (SPM) skömmu eftir bankahrun, en veðsetningu bréfanna hjá SPRON hafði ekki verið aflétt. Bréfin voru því veðsett á tveimur stöðum þegar bankakerfið fór til fjandans.

Þessi staða skipti Arion banka auðvitað engu máli, þó svo að hann hafi yfirtekið báða sparisjóðina. Það skipti Arion banka heldur engu máli að í miðju bankahruninu hafði farist fyrir að aflétta veðinu í SPRON, þrátt fyrir loforð starfsmanna þar um. Ekkert fjárhagslegt tjón hafði orðið – hlutabréfin voru verðlaus eftir að Arion banki hafði sjálfur krafist gjaldþrotaskipta. Þetta voru bara ónýtir pappírar.

Hefnigjarnir bankamenn í sæng með Reyni

Miðað við allt það sem fór úrskeiðis í bankahruninu var þessi tvíveðsetning eins og hvert annað sandkorn á Sólheimasandi. Hefnigjarnir bankamennirnir tíndu þessa pappíra hins vegar upp úr þykkum bunkanum af alls konar rugli í tengslum við bankahrunið og kærðu Jón Snorra til sérstaks saksóknara. Lögin um tvíveðsetningu (skilasvik) eru afdráttarlaus og því hafði sérstakur saksóknari ekki annarra kosta völ en höfða opinbert mál.

Hagsmunir DV og bankamannanna smullu saman og ekki leið á löngu þar til DV var komið með allar upplýsingar um kæru Arion banka á hendur Jóni Snorra. Reyni Traustasyni fannst reyndar ekki nógu krassandi að segja frá því að Jón hafi verið kærður fyrir skilasvik, heldur bjó hann til orðið veðsvik.

Óskyldum málum blandað saman í fréttaskrifum

Það sem skipti ritstjóra DV mestu máli í þessu samhengi var að geta blandað skilasvikakærunni saman við upphaflegu ósannindin um að Jón Snorri sætti lögreglurannsókn í tengslum við gjaldþrot Sigurplasts. Trekk í trekk birti DV fréttir þar sem þessum tveimur óskyldu málum var blandað saman í eitt, til þess að fá lesandann til að trúa því að víst hafi verið fótur fyrir upprunalegu lyginni.

Til að láta kné fylgja kviði fór ritstjóri DV jafnframt að eltast við Háskóla Íslands, hvort ekki ætti að reka Jón Snorra úr starfi vegna kærunnar. Má nærri geta hvaða áhrif sá þrýstingur hafði á stöðu Jóns innan Háskólans.

Sjúklegur áhugi Reynis Traustasonar á því að hefna sín á Jóni Snorra vegna meiðyrðamálsins lýsti sér meðal annars í því að blaðamenn og ljósmyndari DV mættu við fyrirtöku og málflutning í þessu tiltölulega ómerkilega máli. Þórðargleðin leyndi sér ekki í umfjöllun DV og síendurteknum uppslætti þar sem þessum tveimur málum (gjaldþrotsskýrslunni og skilasvikakærunni) var blandað saman með lævísum hætti, til að villa um fyrir lesendum og láta þá halda að þetta væri eitt og sama „Sigurplastmálið“. Miðað við hundruð niðrandi ummæla í athugasemdakerfi dv.is tókst þetta ágætlega hjá hinum hefnigjarna ritstjóra.

Dæmt á hæpnum forsendum

Jón Snorri var dæmdur fyrir skilasvik í héraðsdómi fyrir að vera með hlutabréfin veðsett á tveimur stöðum á sama tíma. Miklu réði um úrslit málsins að sá starfsmaður SPRON sem Jón sagði að hefði gefið vilyrði fyrir því að aflétta veðinu sagðist ekki muna að hafa samþykkt það. Skyldi engan furða, þetta samtal hafði átt sér stað í því mikla stressi sem ríkti tveimur vikum áður en bankarnir hrundu. Dómarinn sá heldur ekkert athugavert við það að viðkomandi vitni var orðinn starfsmaður Arion banka, þess sem kærði. Önnur vitni í málinu, jafn gleymin, voru einnig starfsmenn Arion banka.

Skepnuskapur starfsmanna Arion banka var kærkomið vatn á óhróðursmyllu Reynis Traustasonar, enda virðist slefið ekki hafa slitnað á milli þessara samherja í atlögunni að fyrrum stjórnendum Sigurplasts. Í raun var engin ástæða fyrir Arion banka til að kæra Jón Snorra, þar sem bankinn hafði haft margar aðrar tryggingar frá honum og ekkert tjón hafði orðið þó svo að þessi hlutabréf væru veðsett á tveimur stöðum í nokkra mánuði. Þar að auki gerði Arion banki hlutabréfin sjálfur verðlaus með því að krefjast gjaldþrots yfir Sigurplasti.

50 milljónir lagðar í „leitarstarfið“

Aðförin að mannorði Jóns Snorra skrifast því ekki alfarið á Reyni Traustason. Arion banki lagði honum til heilmikið eldsneyti og dró hvergi af sér í þeirri hjálpsemi. Meðal annars lagði bankinn 50 milljónir króna inn í þrotabú Sigurplasts til þess að gera skiptastjóranum kleift að eltast af nógu miklum kraftir við fyrrum aðaleigendur fyrirtækisins. Ekkert var til sparað og fékk t.d. Ernst og Young greiddar 16 milljónir króna frá þrotabúinu. Of langt mál er að rekja þetta mál hér að öðru leyti, en staðan núna er sú að samkvæmt úttekt matsmanna hefur komið í ljós að Sigurplast var ekki gjaldþrota eins og bankinn fullyrti á sínum tíma, heldur gat fyrirtækið vel staðið undir afborgunum rétt reiknaðra lána.

Milljón króna skiptastjórabömmerinn

Af þrotabúi Sigurplasts er það að frétta að skiptastjórinn er langt kominn með að eyða þessum 50 milljónum króna sem hann fékk til að pönkast á fyrrum stjórnendum Sigurplasts. Ekkert hefur komið út úr þeirri vinnu, nema ef telja mætti þær 180 þúsund krónur sem skiptastjórinn náði til baka af launum sendibílstjóra á áttræðisaldri sem hafði starfað hjá fyrirtækinu. Frægt er að skiptastjórinn rukkaði þrotabúið um eina milljón króna í málskostnað fyrir að hafa þennan pening af ellilífeyrisþeganum.

Hreinn og klár hatursáróður

Aðför Reynis Traustasonar að Jóni Snorra flokkast ekki aðeins sem ærumeiðingar, heldur miklu frekar sem hreinn og klár hatursáróður. Hatursáróður er skilgreindur í athugasemdum með frumvarpi um fjölmiðlalög sem framkoma  í tali eða texta sem hefur að markmiði að vanvirða, smána, hræða og/eða ógna viðkomandi einstaklingi. 60 sjálfstæðar fréttir og greinar segja alla söguna um hvernig staðið hefur verið að þessum hatursáróðri.

Sóðalegir bankamenn

Aðkoma starfsmanna Arion banka að þessari sjúklegu atlögu er vægast sagt umhugsunarverð. Það er óhugnanlegt til þess að vita að innan þessarar stofnunar hafi menn talið verjandi að miðla upplýsingum til ritsóða á borð við Reyni Traustason til þess að ná sér niðri á einhverjum einstaklingum sem þeir voru ósáttir við. Kæra þeirra vegna tvíveðsetningarinnar og upplýsingamiðlun um hana til DV var rakinn skepnuskapur og ótrúlegt að Arion banki telji sóma að því að hafa slíka menn í vinnu.

Lélegt hjá Ernst og Young

Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um þetta mál án þess að benda á hvernig forráðamenn Ernst og Young horfðu í hina áttina meðan DV djöflaðist. Aftur og aftur hélt DV því fram að alvarlegar ásakanir kæmu fram í endurskoðendaskýrslu Ernst og Young. Þessi skýrsla var ekki samin af endurskoðanda hjá fyrirtækinu né fólst endurskoðun í henni. Forsvarsmenn Ernst og Young tóku þátt í þessum ljóta leik með því að leyfa DV að gefa skýrslunni þennan mikilvægisstimpil.

Aðkoma höfundar

Höfundur þessarar samantektar kom að málinu starfs síns vegna á sínum tíma þegar Tryggvi Agnarsson lögmaður skýrði frá því í fréttaviðtali að Arion banki ætlaði ekki að láta reyna að lögmæti gengisbundins láns til Sigurplasts fyrir dómi, heldur krefjast gjaldþrotaskipta. Eftir það hef ég verið í góðu sambandi við aðila málsins, fylgst vel með framvindunni og orðið meira og meira undrandi á lúalegri framkomu ritstjórnar DV, starfsmanna Arion banka og skiptastjóra.

Ég hef lengi hugsað mér að rekja ógeðfelldar aðfarir Reynis Traustasonar gegn Jóni Snorra og sé ekki lengur ástæðu til að bíða. Ekki síst vegna þess að Jón Snorri á nákvæmlega ekkert skilið af því sem Reynir hefur dælt úr skítadreifara sínum.

 

Ólafur Hauksson

Höfundur er framkvæmdastjóri  Proforma


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úr hugskoti Heimis

Höfundur

Heimir Lárusson Fjeldsted
Heimir Lárusson Fjeldsted

Fyrrv. mjólkursaml.stj., fast.sali, frkv.stj., kaupm., bílstj. o.fl.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG 9978

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband