Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Brjóstfælni í laugum?

Hvað fær ykkur hölda til
að hefja raust með þjósti
og segja; ekki viljum við
vera í laug með brjósti?


mbl.is Íslenskar konur mega bera brjóstin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlög kvíðans

Ekki má skilja lesendur eftir í lausu lofti þegar svo alvarlega hluti ber á góma sem kvíðinn er og geri því grein fyrir örlögum hans.

Í morgun ég mætti snemma
með fyrirheit frá því í nótt
er kvíðann kvaðst ég hremma
sem kvaldi mig svo hljótt.

Kvíðinn var kankvís og hress
og kvaddi með miklum stæl.
Blátt áfram sagði bless
brátt ég kem um hæl.


Kvíði.

Þetta á maður ekki að bjóða sjálfum sér; að taka upp á því að hugsa einmitt þegar maður á að tæma hugann og leita skjóls í fallegri tónlist innanfrá eða af diski. Ég sem hafði allan daginn til að hugsa en gerði það auðvitað ekki.......

Kvíði er sestur í mína sál
og situr að ég held í nótt.
Það verður þá fyrst í fyrramál
þangað ég fæ hann sótt.

En hvað á ég að gera við hann í fyrramálið?
Væri betur einnota þessi kvíði.


Guð laug.

Það er alltaf erfitt þegar utanaðkomandi fólk skiptir sér af viðkvæmum einkamálum og veitir ráð án þess að kanna fleiri en eina hlið mála og skýtur svo aðra í skjóli sérfræðiþekkingar:

Inn í líf mitt hún smaug
og blóð úr mér saug
og sagði að Guð væri kona.
Gegnum huga mér flaug
hver þanin var taug
konan Guð laug svona.


Daníel Már að verða tólf ára afadrengur mér alltaf kær.

Ekki má Daníel Már fara frá afa með skarðan hlut:

Daníel Már ég mjög vel man
margar góðar stundir ,
voru hvorki of né van
okkar vina fundir.

Gott mér gefst að elska þig
góði afadrengur.
Viltu alltaf muna mig
mærðardögum lengur.


Erla Rós varð sex ára í nóvember og alltaf í hugskoti afa.

Afastelpa mér hugstæð þessa stundina sem endranær. Afastrákurinn Daníel Már ekki síður. Að honum kemur.

Alltaf hress og ætíð kát,
eilíft lýsir ljós.
Umgengst allt með góðri gát
glaða Erla Rós.

Mikið þykir mér vænt um þig
milda ljúfa ljós.
Alltaf mun ég elska þig,
besta Erla Rós.


Afskaplega falleg sjónvarpsguðsþjónusta með miklum predikara herra Karli Sigurbjörnssyni.

Gleðilegra jóla óska ég öllum lesendum bloggsins míns nær og fjær. Ég hlustaði á biskupinn herra Karl Sigurbjörnsson og get varla orða bundist yfir fegurð og dýpt ræðu hans. Mogginn á vonandi eftir að birta hana í heild svo alþjóð fái notið. Þá var söngurinn hjá Dómkórnum æði fagur þó stundum fari betur að hafa færri í kór. Það voru einkum byrjanirnar sem máttu fara betur. Ég ætti kannski síðastur manna að gagnrýna þærWink.

Annars svellur mér móður í brjósti yfir öllu ranglætinu sem fólk lætur spyrjast um sig,  en bíð betri tíma með frekari útlistanir. Verst þykir mér þegar ranglætið bitnar á börnum og öðrum þeim sem minna mega sín......Angry.


Jólakort Þorláks.

Þorlákur messar 2007.

Þorlákur er þreyttur á
þessum
magnþrungnu og mærðarlegu
messum.

Þorlákur er þreyttur á
þessum
endalausu
blessum.

Ekki þreytist Þorlákur á
hressum
og íturvöxnum konum
í fínum
jóladressum.

Þorlákur er þreyttur á
því að vera ekki
boðið í glöggið Bræðrum hjá
bundinn í messuhlekki

Þorlákur er þreyttur á
þessu jólastússi
ekki yrði ég hissa þá
hann ryki út í fússi.

Til frekari glöggvunar
er rétt að geta þess
að þetta er
margra
jóla
kort.

H
e
i
m
i
r
.


Nef-kvef-stef

Upphafið að þessu stefi
var sár á nefi.
Ég snýtti mér naumt
því nefið var aumt
og örlítið smitað kvefi.

Loksins ég lokið hefi
lognu stefi.
Að nefi sé snýtt
er gamalt og nýtt
ráð við kvefi.


Koma svo Ágúst Ólafur.

Er stuðningur við bágt stadda orðin tóm?Ágúst Ólafur bloggaði í gær um "stórfelldar kjarabætur" öryrkjum til handa, ef kjarabæturnar eru annars staðar en á bloggi varaformannsins ættu þeir ekki að þurfa að stela sér til framfæris.

Enn vænti ég svara Ágúst Ólafur um "stórfelldar kjarabætur" til handa öryrkjum.

Ég held jól með einum slíkum og var í dag að leggja í kostnað vegna hinna stórfelldu kjarabóta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Úr hugskoti Heimis

Höfundur

Heimir Lárusson Fjeldsted
Heimir Lárusson Fjeldsted

Fyrrv. mjólkursaml.stj., fast.sali, frkv.stj., kaupm., bílstj. o.fl.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG 9978

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 1031617

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband